Mikil velta var á skuldabréfamarkaði í gær eða 14,5 milljarðar króna, segir greiningardeild Íslandsbanka.

?Þetta er annar stóri veltudagurinn síðan Seðlabankinn hækkaði stýrivexti síðastliðinn fimmtudag. Stærsti hluti viðskiptanna var með verðtryggð bréf eða 11,8 milljarða króna og hækkaði ávöxtunarkrafa þeirra um 3 -7 punkta. Einnig hækkaði ávöxtunarkrafa óverðtryggðra bréfa um 7-15 punkta í tæpum 2,6 milljarða viðskiptum.

Seðlabanki Íslands tilkynnti í síðustu vikum hækkun stýrivaxta um 75 punkta í 10,25%

Greiningardeild Íslandsbanka segir mest viðskipti hafa verið með tvo lengstu flokka íbúðabréfa en ávöxtunarkrafa stysta flokksins, HFF14 hækkaði mest.

?Vel sást á viðskiptum dagsins í gær að kaupendahlið markaðarins er veik en töluverð sölupressa var á markaðinum. Hækkaði ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa nokkuð skarpt til að byrja með, allt að 7 - 10 punkta á lengstu flokkum íbúðabréfa en sú hækkun gekk að hluta til baka þegar leið á daginn. Svo virðist sem töluverður kaupáhugi vakni þegar krafa lengri verðtryggðra bréfa fer nálægt 3,80%. Okkar mat er að viðnám sé fyrir mikilli hækkun ávöxtunarkröfu á lengri enda vaxtaferilsins og endurspeglast sú skoðun okkar í Markaðsyfirliti skuldabréfa sem var gefið út síðastliðinn mánudag," segir greiningardeildin.