Einn stærsti veltudagur það sem af er ári með markflokka skuldabréfa var í gær en viðskiptin námu tæpum 11,3 mö.kr. Stærsti hluti viðskiptanna var með verðtryggð skuldabréf og lækkaði ávöxtunarkrafa um 2 - 3 punkta yfir allan verðtryggða vaxtaferilinn. Mest voru viðskiptin með lengsta flokk íbúðabréfa, HFF44 (6,2 ma.kr.) og næst stysta flokkinn, HFF24 (2,1 ma.kr.). Einnig voru töluverð viðskipti með óverðtryggða ríkisbréfaflokkinn, RIKB10 (1,4 ma.kr.) og hækkaði ávöxtunarkrafa hans um 2 punkta segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar er bent á að greinilega megi merkja aukinn kaupáhuga á skuldabréfamarkaði en mikill hluti viðskiptanna kom til þegar gengið var inn í sölutilboð. Athyglisvert er hversu lítið ávöxtunarkrafan breyttist þrátt fyrir mikil viðskipti en greina hefur mátt aukna dýpt á skuldabréfamarkaði síðustu vikur. Tæplega 0,4% styrking krónunnar í gær gæti bent til þess að erlendir fjárfestar séu að kaupa innlend, verðtryggð skuldabréf.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.