Gengi hlutabréfa útgerðarfélagsins Brim hækkaði mest, eða um 3,05% í 258 milljóna króna veltu, á nýloknum viðskiptadegi í Kauphöll Nasdaq á Íslandi. Gengi hlutabréfa Regins hækkaði um 2% en gengi annarra félaga fór lækkandi eða hækkaði um innan við 2%.

Mest velta var með hlutabréf Kviku banka, eða 928 milljónir króna og fast á hæla Kviku fylgdi hinn skráði bankinn, Arion banki, með 915 milljóna króna veltu. Heildarvelta viðskipta dagsins nam 3,5 milljörðum króna og stóðu bankarnir því undir ríflega helmingi af heildarveltu.

Gengi Kviku lækkaði jafnframt mest í viðskiptum dagsins, um 1,86%. Næst mest lækkaði gengi Reita, um 1,42%.

OMXI10 úrvalsvísitalan hækkaði um 0,38% og stendur í kjölfarið í 2.965,32 stigum.