Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,77% þegar yfir lauk í enda dags eftir hækkun samfleytt í tvo daga. Hún rauf 1.100 stiga múrinn báða dagana en náði ekki að enda yfir þeim mörkum þegar lokað var fyrir viðskipti með hlutabréf.

Talsverð velta var á markaðnum, um 1,7 milljarðar króna. Til samanburðar nam veltan í kringum tveimur milljörðum króna í gær. Mesta veltan í dag var með hlutabréf Icelandair Group eða fyrir 715 milljónir króna. Það jafngildir um 42% af heildarviðskiptum dagsins.

Gengi hlutabréfa Bank Nordik í Færeyjum hækkaði mest í dag eða eum 3,47%. Af íslensku félögunum hækkaði gengi bréfa fasteignafélagsins Regins mest eða um 0,53%. Á eftir fylgdi gengi bréfa Icelandair Group, sem fór upp um 0,47%, gengi bréfa Vodafone hækkaði um 0,46% og Haga um 0,43%. Á móti féll gengi bréfa Marel um 2,36% auk þess sem bréf Eimskips lækkuðu um 0,2%.

Úrvalsvísitalan lækkaði sem fyrr segir um 0,77% og endaði hún í 1.090,44 stigum.