Gengi hlutabréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar hækkaði um 3,92% í Kauphöllinni í dag. Fyrirtækið skilaði uppgjöri í gær sem IFS Greining sagði gott. Á sama tíma hækkaði gengi bréfa Vodafone um 2,57%. Þá hækkaði gengi fasteignafélagsins Regins um 1,25% og Marel um 1,22% þrátt fyrir að uppgjör fyrirtækisins sem birt var í gær reyndist undir væntingum og Greining Íslandsbanka sagði hafa valdið vonbrigðum .

Gengi hlutabréfa Haga hækkaði jafnframt um 1,02%. Félagið skilaði sömuleiðis uppgjöri í dag en hagnaður félagsins nam tæpum 2 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins.

Þá hækkaði sömuleiðis gengi bréfa Icelandair Group um 0,62%, VÍS um 0,45% og Eimskips um 0,44%.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,77% og endaði vísitalan í tæpum 1.156 stigum. Heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam rúmum 1,7 milljörðum króna. Sem fyrr var mesta veltan með hlutabréf Icelandair Group eða upp á 599 milljónir króna.