Viðskipti með hlutabréf í VÍS hafa verið töluverð á morgni fyrsta viðskiptadags félagsins, að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Gengi félagsins um klukkan 11:20 var 9,15 kr. á hlut sem er 15% hærra en gengi félagsins í A og B hluta útboðsins, 7,95 kr. Heildarvelta með bréf félagsins þegar þetta er skrifað er 1,34 milljarðar króna en á bakvið þá veltu standa rúm 100 viðskipti.

Ein flöggun kom í morgun vegna eignarhalds þegar tilkynnt var um 9,9% hlut Hagamels ehf. Í VÍS. Samkvæmt því er aðeins einn hluthafi annar en Klakki ehf. með meira en 5% hlut í félaginu. Listi yfir stærstu eigendur VÍS hefur ekki verið birtur en gera má ráð fyrir því að hann verði birtur síðar í dag.

Í Morgunkorninu segir að athyglisvert verði að skoða hlutdeild lífeyrissjóðanna í VÍS en fyrir liggur að enginn lífeyrissjóður á umfram 5% hlut í félaginu eftir útboð, til samanburðar eiga þrír lífeyrissjóðir meira en 5% hlut í TM og lífeyrissjóðirnir eiga töluverðan hluta í Sjóvá í gegnum SF1 slhf.

„Spurningin er hvort lífeyrissjóðirnir muni kjósa að eiga í öllum tryggingafélögunum eða veðji á ákveðinn hest. Þess fyrir utan er þó nauðsynlegt að líta til þess að seljendur VÍS höfðu fulla heimild til að velja eigendahóp félagsins, miðað við eðli starfsemi Klakka ehf. er þó líklegt að það val hafi að fullu byggst á verði. Í ljósi þeirra viðskipta sem verið hafa í dag er nauðsynlegt að hafa í huga að sá hluthafalisti sem birtur verður getur nú þegar hafa tekið töluverðum breytingum,“ segir í Morgunkorninu.