Viðskipti í Kauphöllinni í dag námu alls 29,3 milljörðum króna í dag. Þar af var langstærstur hlutinn í skuldabréfum, en viðskipti með þau námu 28,4 milljörðum á meðan viðskipti með hlutabréf námu rétt rúmum 900 milljónum.

Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,76% en úrvalsvísitala hlutabréfa hækkaði um 0,05%.

Mest var hækkunin hjá VÍS, eða 1,42% í 76 milljóna króna viðskiptum. Hagar hækkuðu um 1,02% en viðskipti með bréfin námu einungis 50.000 krónum. Eik hækkaði um 0,55%, Fjarskipti um 0,32%, Eimskip um 0,31%, Reginn um 0,30% og Icelandair um 0,17%. Mest voru viðskipti með bréf í Fjarskiptum, eða rúmar 213 milljónir króna.

Af þeim fyrirtækjum sem lækkuðu var lækkunin mest hjá Össuri, eða 0,85%. HB Grandi og Marel lækkuðu um 0,48%, Reitir um 0,41% og TM um 0,24%.

Markaðsvísitala GAMMA hækkaði um 0,5% í dag. Hlutabréfavísitalan hækkaði einungis um 0,02% en skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,7%. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,8% í 5 milljarða króna viðskiptum og óverðtryggði hlutinn hækkaði um 0,7% í 22,3 milljarða viðskiptum.