Miklar hækkanir hafa orðið á hlutabréfamarkaði í dag. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,75% í tæplega 5,4 milljarða króna veltu og var klukkan 13:30 í 1.601,66 stigum og hefur ekki verið hærri frá hruni. Frá áramótum hefur vísitalan hækkað um 22,2%. Gengi bréfa Sjóvár hefur hækkað um 3,04% í dag, Reita um 2,97% og TM um 2,89%.

Mest er veltan í viðskiptum með bréf Marels, um 2.534 milljónir króna, en fyrirtækið hefur verið að kaupa eigin bréf í samræmi við samþykktir á aðalfundi. Þá nemur velta í viðskiptum með bréf Icelandair Group 950 milljónum króna og í viðskiptum með bréf N1 506 milljónum króna.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins á hlutabréfamarkaði segja að hækkanirnar núna eigi sér nokkrar ástæður. Mjög jákvætt virðismat greiningardeildar Arion banka á Icelandair Group kom út í gær og þá voru ársfjórðungsuppgjör N1 og Fjarskipta jákvæð. Þá munu kaup erlendra aðila á hlutabréfum fyrir viku hafa þurrkað upp töluvert af þeim bréfum sem í boði voru og þrýstir það verðinu upp.