Umsvif í hagkerfinu voru mikil á fyrstu tveimur mánuðum ársins hvort sem litið er til verslunar og þjónustu eða fjárfestingar í iðnaði. Aftur á móti átti sjávarútvegur fremur undir högg að sækja, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Heildarvelta jókst um tæplega 14% að nafnvirði miðað við sama tímabili í fyrra, samkvæmt tölum Hagstofunnar um virðisaukaskattsveltu í janúar og febrúar. Veltan nam 258 milljörðum króna.

Velta fiskveiða minnkaði að nafnvirði um 2,3% á milli ára og nam tæpum ellefu milljörðum. Að auki dróst velta í matvælaiðnaði saman um rúmlega 5%, en fiskvinnsla er drjúgur hluti þeirrar atvinnugreinar, að sögn greiningardeildar.

?Gengi krónu var um 5,5% hærra á fyrstu tveimur mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra að jafnaði, en á móti kemur að heimsmarkaðsverð á sjávarafurðum hækkaði nokkuð á tímabilinu," segir greiningardeildin.

Ál hækkaði mikið milli ára og skýrir það ríflega fjórðungs aukningu á veltu í framleiðslu málma á tímabilinu.

Velta í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð jókst um tæp 44% á tímabilinu og liggur ástæðan helst í stóriðjutengdum framkvæmdum, auk þess sem bætt hefur í byggingu íbúðarhúsnæðis.

Þá jókst bílasala um 22%, smásöluverslun um 11% og velta í fjármálaþjónustu jókst um 19% á milli ára.

?Ferðaþjónusta virðist mega nokkuð vel við una ef marka má veltutölur í flugsamgöngum, en aukning í þeirri grein nam 4,5% milli ára, og í hótel og veitingahúsarekstri þar sem velta jókst um rúm 18% milli ára," segir greiningardeildin og bætir við:

?Ofangreindar tölur gefa vísbendingu um þróun helstu þjóðhagsstærða á fyrsta ársfjórðungi. Þannig er ekki ólíklegt að einkaneysla og fjárfesting hafi aukist nokkuð milli ára, en hins vegar má búast við að viðskiptahalli reynist verulegur."