*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 16. nóvember 2021 11:19

Mikil velta með miða á jólasýningar

Kortavelta tengd ferðaskrifstofum og skipulögðum ferðum í október var tæplega tífalt hærri en í fyrra og 1% hærri en í október 2019.

Ritstjórn
Frá jólatónleikum Fíladelfíu.
Árni Sæberg

Heildarkortavelta hér á landi nam rúmum 94 milljörðum króna í síðasta mánuði, sem er sambærilegt og í síðasta mánuði en um 35% aukning frá október 2020. Heildarkortavelta Íslendinga hérlendis nam 79,6 milljörðum í október, sem er 16,9% hærra en í október í fyrra og 20,1% hærra en í október 2019. Verslunartengd kortavelta jókst um 5,53% á milli mánaða á meðan þjónustutengd kortavelta jókst um 5,7%.

„Sprenging“ var í innlendri kortaveltu tengdri tónleikum, leikhúsi, kvikmyndasýningum og viðburðum að því er kemur fram á vef Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV).

Velta í þeim flokki nam 1.089 milljónum í október en á sama tíma árið áður var hún 61 milljón. Það má að stærstum hluta rekja til samkomutakmarkana á síðasta ári. Einnig segir RSV að miðasala á jólatónleika fari yfirleitt af stað í september en í ár byrjaði hún í október. Velta í flokknum nálgast nú toppinn frá september 2018.

Mynd tekin frá RSV.

Ferðahugur í Íslendingum

Veltan í flokknum Ferðaskrifstofur og skipulagðar ferðir í október var rúmlega tífalt hærri en á sama tíma í fyrra og 1% hærri en í október 2019. Velta með tollfrjálsa verslun jókst nam rúmum 523 milljónum í síðasta mánuði. Það er um 48,5% aukning frá fyrri mánuði og nærri sjöföld aukning frá október 2020.

Þá var 21,4% aukning á milli mánaða í veltu með gjafavörur og minjagripi sem líklega má rekja til árstíðabundinnar jólagjafavertíðar. Um fjórðungur af veltu verslunar með gjafavöru og minjagripi fór fram í gegnum netverslun.

Kortavelta erlendra ferðamanna var 15,6% af heildarkortaveltu í október en sama hlutfall var 20,5% í október 2019. Árstíðabundinn samdrátt mátti þó greina á milli mánaða en kortavelta erlendra ferðamanna dróst saman um 21%, eða tæpa 3,8 milljarða, á milli september og októbermánaða.

Á myndinni hér að ofan, sem tekin er frá RSV, má sjá að innlend kortavelta í ferðatengdum flokkum í október var svipuð og í október 2019.