Mikil velta var á gjaldeyrismarkaði í vikunni, segir greiningardeild Landsbankans. Hún nam 96,2 milljörðum króna sem samsvarar 19,2 milljörðum króna að meðaltali á dag.

Gengisvísitala krónunnar endaði vikuna í 111,1 stigum og veiktist krónan um 0,4% miðað við lokagengið á föstudaginn.

Nokkrar sveiflur voru innan vikunnar. Þannig styrktist krónan fyrstu þrjá daga vikunnar um samtals 1,7%, en veiktist nokkuð mikið í gær eða um 1,6%. Í dag veiktist krónan um 0,45% í 21,8 milljarða króna viðskiptum.

Svo virðist sem nokkurs taugatitrings gæti á gjaldeyrismarkaði.

Þetta þarf ekki að koma á óvart í ljósi veikingarinnar sem varð í síðustu viku í kjölfar þess að Fitch færði lánshæfishorfur íslenska ríkisins úr stöðugum í neikvæðar.

Krónan leitar nú að nýju jafnvægi, en við teljum að raungengið sé nú 10%-15% frá því sem getur samræmst langtímajafnvægi. Í ljósi þess hve skammtímavaxtamunur við útlönd er mikill, er líklegt að krónan geti áfram haldist yfir jafnvægi um nokkurt skeið.