Þau átta ríki sem eiga aðild að Norðurskautsráðinu eiga margt sameiginlegt, en það sem aðskilur þau er að þau halda öll út sinni eigin mynt.

Þetta sagði Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir, á morgunverðarfundi VÍB um tækifærin á Norðurslóðum sem haldinn var í morgun. Heiðar Már sagðist þó gera ráð fyrir því að með árunum myndi þetta breytast og með aukinni samvinnu þessara ríkja myndu veikari myntir hverfa af sjónvarsviðinu.

Í erindi sínu fjallaði Heiðar Már  um mikilvægi Norðurslóða og sagði að með stóraukinni fólksfjölgun í heiminum myndi íbúum á Norðurslóðum fjölga. Þá sagði Heiðar Már að allt stefndi í það að árið 2050 yrðu íbúar heimsins um níu milljarðar og ríki á Norðurslóðum hefðu tækifæri til að sjá auknum fólksfjölda fyrir aukinni orku, vatni, landbúnaðarvörum og próteini, s.s. fiskafurðum.

Heiðar Már sagði að með bráðnun ísþekjunnar á Norðurslóðum myndi skipaumferð um svæðið stóraukast. Í kjölfarið fjallaði hann sérstaklega um stöðu Íslands í þessu samhengi. Hann sagði að allt benti til þess að efnahagur Grænlands yrði brátt stærri en hagkerfi Íslands en Ísland hefði tækifæri til að nýta sér tækifæri sem skapast með þeim heildarbreytingum sem eru að eiga sér stað á Norðurslóðum.

Þannig benti Heiðar Már á að Ísland  hefði þann kost að geta boðið upp á íslausar hafnir allan ársins hring. Hann sagði ólíklegt að Ísland yrði umskipunarhöfn fyrir siglingaleiðna yfir Norðurslóðir, Murmansk í Rússlandi og Kirkenes í Noregi hefðu þar forskot, en það væri þó ekki útilokað ef stór skipafyrirtæki hefðu áhuga á því að byggja upp hafnir hér á landi. Hins vegar gætu Íslendingar byggt upp þjónustuhafnir vegna verkefna á Grænlandi eða á öðrum svæðum á Norðurslóðum.

Þá sagði Heiðar Már að Icelandair væri nú með beint áætlunarflug til allra ríkja sem eiga aðild að Norðurskautsráðinu, en þar vísaði hann til þess að í gær hófst beint áætlunarflug til Anchorage í Alaska og í lok þessa mánaðar mun Icelandair hefja flug til St. Pétursborgar í Rússlandi. Þannig geti fólk flogið frá Rússlandi til Alaska með millilendingu á Íslandi og það sama á við um önnur ríki við Norðurskautið. Þá minnti Heiðar Már á að Flugfélag Íslands flýgur nú þegar til fleiri áfangastaða á Grænlandi en á Íslandi. Íslendingar hefðu því tækifæri til að vera flughöfn fyrir Grænland.

Þá sagði Heiðar Már jafnframt að Íslendingar hefðu tækifæri til að til veita Grænlendingum aukna heilbrigðisþjónustu auk þess að koma að mannvirkjauppbyggingu og fleiri þáttum.

Allt veltur þetta þó á gjaldeyrishöftum eins og fram kom í sjónvarpsviðtali við Heiðar Má hér fyrr í dag . Þau gera það að verkum að Íslendingar geta ekki tekið þátt í fjárfestingarverkefnum í Grænlandi þó mikil tækifæri séu þar til staðar.