Gengi bréfa Marels hefur hækkað um 3,13% það sem af er degi í kauphöll Nasdaq Iceland. Velta í viðskiptum með bréfin nemur 2.858 milljónum króna, en til samanburðar nemur velta með önnur hlutabréf á Aðallista 216 milljónum króna.

Ljóst er að uppgjör Marels fyrir árið 2014 hefur runnið ljúflega ofan í markaðinn. Hagnaður Marels í fyrra nam 11,7 milljónum evra, andvirði um 1,8 milljarða króna, en var 20,6 milljónir evra árið 2013. Í tilkynningu segir að hagnaður sé litaður af einskiptiskostnaði í tengslum við hagræðingu í rekstri á árinu 2014. Tekjur ársins 2014 námu 712,6 milljónum evra og hækkuðu um 7,7% frá fyrra ári.

Þrátt fyrir að hagnaður hafi dregist saman á milli ára þá gefa viðbrögð á markaði til kynna að uppgjörið hafi verið yfir væntingum fjárfesta.