Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,08% í viðskiptum dagsins í dag og endaði í 1.760,27 stigum. Gengi bréfa Reita hækkaði um 0,74%, Icelandair um 0,63% og Sjóvár um 0,62%. Gengi bréfa Össurar, Nýherja og Fjarskipta hækkaði reyndar meira, en í afar litlum viðskiptum. Gengi bréfa HB Granda lækkaði um 0,81% og Marels um 0,69%.

Langmest velta var með bréf Símans, en viðskipti með bréf félagsins námu alls 1.627 milljónum króna í dag, en gengi bréfa félagsins hækkaði um 0,29% og endaði í 3,50 krónum. Næstmest velta var með bréf Icelandair, eða fyrir 436 milljónir. Heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam í dag 3.336 milljónum króna.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,1% í dag í 6,3 milljarða króna viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði lítillega í 0,5 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,2% í 5,8 milljarða króna viðskiptum. Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa stóð í stað í dag í 0,1 milljarða króna viðskiptum.