Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,39% í dag og stóð í 1.768,11 stigum við lok dags en viðskipti á hlutabréfamarkaði námu rúmlega 3,8 milljörðum króna. Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði um 0,15% og stendur því í 1.359,22 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu rúmlega 4,3 milljörðum króna.

Mest hækkun varð á bréfum Skeljungs en hún nam 2,43% og standa bréf félagsins því í 7,17 krónum. Jafnframt voru mestu viðskipti dagsins með bréf Skeljungs en þau námu um rúmlega 1,5 milljarði króna. Næst mest hækkuðu bréf Haga og Reita en hvort félag um sig hækkaði um 1,11%. Viðskipti með bréf Haga námu tæpum 570 milljónum og stóðu þau í 40,95 krónum við lokun markaða. Viðskipti með Reiti námu hins vegar tæpum 278 milljónum króna og stóðu bréf fasteignafélagsins í 90,90 krónum í lok dags.

Aðeins tvö félög lækkuðu í dag en annað þeirra, VÍS lækkaði óverulega eða um 0,04%. Hitt, Icelandair, lækkaði um 0,91% í viðskiptum upp á rúmar 96 milljónir. Stóðu bréf flugfélagsins í 16,40 krónum við lok dags.