Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 1,16% í dag og stóð í 1.651,64 stigum við lok dags en viðskipti á hlutabréfamarkaði námu tæplega 4,4 milljörðum króna. Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði einnig um 0,03% og stendur því í 1.364,42 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu rúmlega 1,5 milljörðum króna.

Mest hækkuðu bréf Marel eða um 2,53% í tæplega 451 milljón króna viðskiptum en bréfin stóðu í 324 krónum við lokun markaða. Næst mest hækkuðu bréf Icelandair eða um 1,29% í 48 milljón króna viðskiptum og standa þau nú í 15,70 krónum.

Mest lækkun var á bréfum HB Granda eða 1,81% en á sama tíma voru mikil viðskipti með bréf félagsins eða sem nema tæpum 1,7 milljörðum króna. Kauphöllin sendi frá sér tilkynningu í dag en þar er tilkynnt um að fjármálafyrirtækið Stefnir hafi farið yfir 5% markið en félagið átti eftir viðskiptin 5,25% hlut í HB Granda.

Næst mest lækkuðu bréf Tryggingamiðstöðvarinnar eða um 1,04% í 184 milljón króna viðskiptum. Bréf tryggingafélagsins stóðu í 33,30 krónum við lokun markaða.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,7% í dag í 4,3 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,04% í 1,1 milljarðs viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar stóð í stað í tæplega 0,2 milljarða króna viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,12% í tæplega 1 milljarðs króna viðskiptum.