Gengi hlutabréfa Vodafone hækkaði um 0,9% í rétt rúmlega 13 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Þetta var fremur lítil velta samanborið við viðskipti með önnur hlutabréf á markaðnum. Á sama tíma hækkaði gengi bréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar 0,72%, bréf Haga hækkaði um 0,37% og Eimskips um 0,18%.

Á sama tíma lækkaði gengi bréfa Icelandair Group um 0,67% og fasteignafélagsins Regins um 0,26%.

Mestu viðskiptin voru í dag með hlutabréf Eimskips upp á 625,6 milljónir króna og Icelandair Group upp á 617 milljónir króna. Þriðja mesta veltan var með hlutabréf Regins eða upp á 160,6 milljónir króna. Þá nam velta með hlutabréf Marel tæpum 123 milljónum króna. Viðskipti með önnur hlutabréf voru undir 100 milljónum króna.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,26% og endaði hún í 1.229,48 stigum.