Gengi hlutabréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar lækkaði um 1,95% í Kauphöllinni í dag. Frekar lítil velta var á bak við viðskiptin eða rúmar 345 þúsund krónur. Á sama tíma lækkaði gengi bréfa Vodafone um 0,44%, Marel um 0,34% og fasteignafélagsins Regins um 0,22%.

Hins vegar hækkaði gengi bréfa Haga-samstæðunnar um 0,38%, Eimskips um 0,18% og Icelandair Group um 0,17%. Mestu viðskiptin voru með hlutabréf Eimskips eða fyrir rúma 581 milljónum króna. Viðskiptin skýrast að stórum hluta af sölu sjóða Stefnis, dótturfélags Arion banka, á tveimur milljónum hluta í Eimskipi. Sjóðir LSR keyptu hlutina. Ætla má að kaupverðið hafi verið rúmum hálfur milljarður króna.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,52% og endaði hún í 1.181,59 stigum.