Mikil velta hefur verið með hlutabréf Haga-samstæðunnar í Kauphöllinni í dag. Heildarveltan nemur þegar þetta er skrifað 725,8 milljónum króna og er það mesta veltan það sem af er degi. Gengi bréfa Haga hefur hins vegar ekkert breyst síðan í gær og stendur það í 25 krónum á hlut.

Kjölfestuhluthafar Haga með þá Árna Hauksson og Hallbjörn Karlsson fremsta í flokki  keyptu hlut í félaginu á 10 til 11 krónur á hlut á vordögum 2011. Ljóst er að síðan þá hefur virði hlutafjárins hækkað um 127 til 150%. Gengi bréfanna var 13,5 krónur á hlut í almennu hlutafjárútboði í aðdraganda skráningar Haga á markað í desember árið 2011 og hefur það hækkað um rúm 85% síðan þá.

Þá nemur veltan með hlutabréf Icelandair Group 185 milljónum króna það sem af er degi. Þetta er lítil velta miðað við viðskiptin síðustu daga. Fjallað er um viðskiptin með hlutabréf Icelandair Group í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.

Heildarvelta með hlutabréf í Kauphöllinni nemur nú rétt rúmum einum milljarði króna. Það merkir að viðskiptin með hlutabréf Haga jafngildir rúmum 70% af henni. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,31% og stendur hún í tæpum 1.168 stigum.