Velta með hlutabréf í Marel hefur numið rúmum 2,2 milljörðum kr. það sem af er degi. Hlutabréf félagsins hafa lækkað um 2,72% í dag eftir mikla hækkun eftir tilkynningu síðasta uppgjörs. Gengi bréfanna fyrir birtingu uppgjörs var í 104 en stendur nú í 125.

Orðrómur er um að seljandinn að baki stærstum hluta bréfanna sé sjóður á vegum Columbia Wanger Asset Management sem heitir Columbia Acorn International. Sjóðurinn keypti 5,2% hlut í Marel í september 2009 á genginu 59. Kaupendur eru sagðir nokkrir innlendir lífeyrissjóðir, en ekki hafa fengist upplýsingar um hvaða sjóði er þar um að ræða.

Samkvæmt lista yfir stærstu hluthafa Marel í síðustu viku var sjóðurinn í 4. sæti yfir stærstu hluthafa með 35,9 milljónir hluta eða 4,89% hlutafjár.

Viðskiptablaðið hefur ekki fengið þennan orðróm staðfestan.