Mikil viðskipti hafa verið á skuldabréfamarkaði það sem af er þessu ári. Heildarvelta viðskipta með markflokka skuldabréfa fór á einum degi í tæplega 108 milljarða króna þegar hún var mest, en hún nam 132 milljörðum króna í öllum maímánuði í fyrra.

Velta það sem af er ári nemur nú 2.727 milljörðum króna og hefur fjórfaldast frá sama tíma í fyrra.

Ró hefur aftur á móti haldist á hlutabréfamarkaði, en samkvæmt Vegvísi Landsbankans skýrist þessi aukna eftirspurn eftir skuldabréfum að einhverju leyti af aukinni áhættufælni og slæmu gengi hlutabréfamarkaða.

Einnig hefur það samkvæmt Vegvísi spilað inn í að um síðustu áramót töldu margir þess ekki langt að bíða að stýrivextir yrðu lækkaðir.

Hlutabréfavelta í íslensku kauphöllinni var 126 milljarðar króna í maí, sem er 51% minna en á sama tíma í fyrra. Veltan hefur ekki verið minni í einum mánuði síðan í nóvember 2006 þegar hún var 117 milljarðar króna. Það sem af er ári hefur velta á hlutabréfamarkaði dregist saman um 38%, miðað við sama tíma í fyrra.

Frá þessu er greint í Vegvísi Landsbankans.