Viðskipti á stofnfjármarkaði SPRON hafa verið mjög fjörug síðustu tvo daga eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag og má leyfa sér að ætla að það tengist eitthvað yfirlýsingu um sameiningaviðræður milli SPRON og Sparisjóðs vélsstjóra. Á miðvikudaginn skiptu alls um 1.200 bréf um eigendur, eða um 8,4% alls stofnfjár SPRON. Öll viðskiptin voru á genginu 6,5. Í lok dagsins var lægsta sölutilboð 6,75 en hagstæðasta kauptilboð 6,0. Í gær voru viðskipti með 300 til 400 bréf og hélst gengið það sama þó heldur styttra væri á milli kaup- og sölutilboðs.

Að sögn Halldórs Friðriks Þorsteinssonar, hjá HÞ Verðbréfum, sem sjá um söluna, er engin einn aðili kominn upp í 5%. Samkvæmt lögum um Sparisjóði þarf fjármálaeftirlitið að samþykkja ef einhver einn aðili er kominn með 10% eignarhlut en engin má fara með meira en 5% af atkvæðavægi sparisjóðsins. Þá þarf stjórn SPRON að samþykkja það að hlutur fari yfir 5%. Að sögn Halldórs hafa nú um það bil 20% stofnfjár skipt um eigendur síðan viðskipti með bréfin hófust 30. september sl.

Eftir því sem komist verður næst var gert ráð fyrir því að allt að 50% stofnfjár gæti skipt um eigendur enda má segja að tilboð undanfarinna missera hafi ýtt af stað söluáhuga stofnfjáreigenda. Að sögn Halldórs kemur áhuguinn núna því ekki svo mjög á óvart.
Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.