Mikil viðskipti voru með bréf í bresku tískuvöruverslunarkeðjunni French Connection í gær. Breska dagblaðið The Guardian segir að orðrómur um að Baugur sé að auka við hlut sinn í keðjunni hafi ýtt undir viðskiptin þar sem markaðurinn vænti þess að félagið hafi áhuga á að taka yfir French Connection.

Ekki er þó líklegt að Baugi takist að taka yfir French Connection án samþykkis stofnanda fyrirtækisins, Stephen Marks, sem á 42% hlut í félaginu. French Connection hefur átt undir högg að sækja og hafa vinsældir vörumerkisins dvínað verulega. Smásölusérfræðingar segja að FCUK-merki keðjunnar sé orðið verulega þreytt og að þörf sé á breytingum.

Baugur Á rúmlega 10% hlut í French Connection og ekki hefur fengist staðfest hvort fyrirtækið hafi aukið hlutinn síðustu daga.