Mikil viðskipti voru með hlutabréf Kaupþings banka í dag eða alls fyrir 7.895 milljónir króna samkvæmt yfirliti úr Kauphöllinni.

Gengi bréfanna hélst þó lítið breytt og var lokagengi þeirra 824. Þá námu viðskipti með bréf Íslandsbanka 7.584 milljónum króna og lækkaði gengi þeirra um 3% eða 60 aura á hlut. Lokagengi var 19,30.

Viðskipti í Kauphöllinni námu alls 21.789 milljónum króna og mest með hlutbréf eða fyrir um 20.048 milljónir. Auk viðskipta með hlutabréf bankanna tveggja voru töluverð viðskipti með bréf Landsbankans eða 2.178 milljónir króna. Gengið lækkaði um 1,1% og var síðasta viðskiptagengi 27,20.

Flest hlutabréf lækkuðu í verði í dag fyrir utan 0,8% verðhækkun á bréfum Atorku Group. Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,25%.