Viðskipti með bréf Exista námu samtals 668 milljónum króna á fyrsta degi viðskipta í 147 viðskiptum. Gengi bréfanna í dagslok var 22,6 sem er 5,1% hækkun frá útboðsgengi sem var 21,5.

Markaðsvirði félagsins var í lok dagsins 245 milljarðar sem þýðir að Exista er nú fjórða stærsta félagið á markaðnum eins og kemur fram í frétt Kauphalarinnar. Með skráningu Exista er markaðsvirði félaga á íslenska hlutabréfamarkaðnum orðið ríflega tvöföld landsframleiðslan, eða 2.400 milljarðar.

Viðskipti með hlutabréf Exista hf. hófust í Kauphöllinni í morgun. Skráning Exista er stærsta nýskráning félags í Kauphöllina en markaðsvirði félagsins var 249 milljarðar króna miðað við fyrsta viðskiptaverð í morgun. Heildarfjöldi hluta í Exista hf. eru alls 10.838.746.119.

Exista hf. er í hópi stærstu fyrirtækja landsins og nema heildareignir þess yfir 300 milljörðum króna. Félagið starfar á sviði fjármálaþjónustu, einkum trygginga og eignaleigu, m.a. undir merkjum VÍS og Lýsingar. Exista er jafnframt kjölfestufjárfestir í nokkrum af stærstu fyrirtækjum landsins, þar á meðal Kaupþingi banka, Bakkavör Group og Símanum.