Fjöldi fjárfesta hefur lýst yfir áhuga á að kaupa fyritækin Danól og Ölgerðina Egil Skallagrímsson, segir í fréttatilkynningu, en fyrirtækin voru nýlega sett í sölumeðferð hjá MP Fjárfestingabanka.

Alls hafa 42 fjárfestar, bæði innlendir og erlendir, haft samband við MP Fjárfestingarbanka og óskað eftir gögnum um fyrirtækin. Verða félögin seld saman eða hvort í sínu lagi að því gefnu að ásættanlegt kauptilboð berist, segir í fréttatilkynningu

Í tilkynningunni segir að árið 2005 hafi verið einkar gott rekstrarár fyrir bæði félögin og eru horfur góðar fyrir árið 2006. Áætluð samanlögð EBITDA félaganna á þessu ári er um 950 milljónir króna.

Í fyrsta áfanga söluferlisins fá áhugasamir fjárfestar afhent almenn kynningargögn um fyrirtækin og markaðinn og skila inn upplýsingum um sig og ráðgjafa sína. Fjárfestar sem taldir eru koma til greina fá frekari kynningu á fyrirtækjunum. Gert er ráð fyrir að söluferlinu ljúki fyrir páska.

Daníel Ólafsson ehf., Danól, er fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var 1932 og er í eigu Einars Friðriks Kristinssonar framkvæmdastjóra og Ólafar Októsdóttur. Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. hefur verið í eigu Danól frá 2002.

Danól kaupir tvö fyrirtæki

Danól hefur keypt öll viðskiptasambönd fyrirtækjanna Indía krydd og umbúða ehf, og Móða og Magna ehf., segir í fréttatilkynningu.

Samanlögð velta bæði Indía krydda og umbúða og Móða og Magna er áætluð um 250 milljónir króna á þessu ári og samlegðaráhrifa vegna kaupanna gæti strax.

Danól hefur vaxið hratt undanfarin ár með innri vexti og fjölgun erlendra viðskiptasambanda. Einnig með svokallaðri uppkaupastefnu en miklir vaxtarmöguleikar liggja í því að kaupa önnur fyrirtæki sem eru með þekkt vörumerki á markaðnum, segir í tilkynningunni.

Fyrirtækjum á þessum markaði hefur verið að fækka og spá manna er að stóru fyrirtækin eigi eftir að verða enn stærri og öflugri. Með þessum kaupum hefur Danól keypt 23 innflutningsfyrirtæki frá árinu 1985. Sjö þeirra voru sameinuð Ölgerðinni 2003.

Indía var stofnað 1980 og annaðist í fyrstu innflutning á kryddi. Var félagið selt 1993 og eftir það rekið sem deild í Erninum. Árið 2004 var félaginu skipt upp og rekið af Þórði Sigurðssyni og Magnúsi Sigurðssyni sem nú selja Danól félagið.