Stór hópur íslenskra námsmanna við háskóla á Kaupmannahafnarsvæðinu komu á kynningu Capacent Ráðninga í höfuðstöðvum Capacent í Danmörku þar sem farið var yfir atvinnuástandið á íslenskum vinnumarkaði og rætt um þau tækifæri sem eru nýútskrifuðum í boði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Capacent.

Jens Indahl framkvæmdastjóri Capacent í Danmörku bauð gesti velkomna og sagði frá starfsemi Capacent í Danmörku og á Íslandi, útskýrði viðskiptalíkan Capacent, framtíðarmarkmið og sóknarfæri fyrirtækisins.

Þeir Sigurður J. Eysteinsson og Hilmar Garðar Hjaltason frá Capacent Ráðningum á Íslandi fjölluðu um ástandið og tækifærin á íslenskum vinnumarkaði auk þess að fara fyrir þau atriði sem hafa ber í huga áður en sótt er um störf í gegnum ráðningarstofur.

Samkvæmt tilkynningu Capacent var farið yfir nýjustu Væntingavísitölu Gallup.

„Tekið var eftir að mælingar á neikvæðni höfðu dregist saman á milli mánaða. Eins þótti fundargestum fróðlegt að sjá að „ástandið“ er enn ekki farið að hafa sýnileg áhrif á eftirspurn eftir menntuðu vinnuafli framboð á menntuðu vinnuafli. Ljóst er að atvinnugreinarnar eru að fara misvel útúr þeim breytingum sem nú dynja á Íslendingum,“ segir í tilkynningunni.

Að sögn Capacent var markmið fundarins að benda nemendum á þau tækifæri sem felast í breyttum aðstæðum og því hvernig best sé að bera sig að við atvinnuleit á Íslandi og miðað við spurningar og athugasemdir tókst það vel.

„Að fundi loknum sköpuðust líflegar umræður og var ljóst að íslenskir nemendur fylgjast vel með fjölmiðlaumræðunni heima á Íslandi og hafa áhyggjur af starfs- og búsetumöguleikum við heimkomu,“ segir í tilkynningu Capacent.