Umfang netkönnunar sem Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lét framkvæma um afstöðu fólks til sumartíma (daylight savings time) kom embættismönnum töluvert á óvart. 4,6 milljón svör bárust; langtum flest svör sem nokkurntímann hafa borist við slíkri könnun, en tugir þeirra eru framkvæmdar árlega.

Enn sem komið er hafa niðurstöðurnar ekki verið opinberaðar, en embættismenn sem þekkja til málsins sögðu í samtali við Financial Times að mikill meirihluti svarenda vildi binda enda á hefðina að hliðra klukkunni fram á við um klukkutíma á sumrin, og svo til baka á veturna.

Meðlimaríki Evrópusambandsins hafa frjálst val um hvaða tímabelti þau fylgja, en hliðrunin sjálf hefur verið stöðluð innan sambandsins síðan á 9. áratugnum. Öll heimsálfan flýtir klukkunni um klukkutíma á síðasta sunnudegi í mars, og seinkar henni aftur á síðasta sunnudegi októbermánaðar. Væri sumartími lagður af hefðu meðlimaríki áfram frjálst val um tímabelti, og gætu því verið á „sumartíma“ allan ársins hring.

Starfshópur lagðist gegn sumartíma hérlendis
Breytingar á klukkunni hafa verið til umræðu hér á landi síðustu ár. Í nóvember 2017 var skipaður starfshópur um leiðréttingu á klukkunni, og í febrúar skilaði hann greinargerð með tillögum. Í henni var lagt til að klukkunni á Íslandi yrði seinkað um klukkustund, til að samræmast betur „réttu tímabili“, en lagst gegn því að tekinn yrði upp sumar- og vetrartími, með vísan í rannsóknir sem bendi til þess að slíkar breytingar hafi neikvæð áhrif á heilsu fólks.