Árið 2015 hafði rúmur helmingur landsmanna sótt að minnsta kosti einn íþróttaviðburð, en það var annað hæsta hlutfallið í Evrópu. Aðeins Holland var með hærra hlutfall árið 2015. Ef aðeins er horft til þeirra sem sóttu slíka viðburði fjórum sinnum eða oftar var hlutfallið tæp 32%, sem einnig var annað hæsta hlutfallið í Evrópu. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar .

Áhugi á íþróttum virðist hafa aukist á milli 2006 og 2015 en árið 2006 var hlutfall þeirra sem hafði sótt a.m.k. einn íþróttaviðburð 8,7 prósentustigum lægra. Þessi hækkun færði Ísland úr fimmta í annað sætið. Aðeins í Hollandi jókst aðsókn meira en á Íslandi, eða um 13,5 prósentustig, en sú hækkun færði Holland úr níunda sæti í það fyrsta.

Alls staðar í Evrópu voru karlar líklegri en konur til að sækja íþróttaviðburði, en kynjabilið var nokkuð breytilegt á milli landa. Kynjabilið var minnst á Íslandi hjá þeim sem sóttu a.m.k. einn íþróttaviðburð, eða 8,3 prósentustig.