Töluverður áhugi er fyrir sölu færeyska bankans BankNordik á hlut sínum í tryggingafélaginu Verði. Þetta segir Friðrik Jóhannsson, meðeigandi hjá Icora Partners sem annast söluferlið, í samtali við Viðskiptablaðið.

Tilkynnt var um að BankNordik hygðist selja allan hlut sinn í Verði í júní síðastliðnum en bankinn á 99,9% alls hlutafjár í tryggingafélaginu. Bankinn eignaðist ráð­andi hlut í félaginu árið 2009 eða 51% og fyrrihluta ársins 2012 eignaðist bankinn allt hlutaféð.

Þegar bankinn keypti útistandandi 49% hlutafjár í Verði þá var það í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans. Nú hefur BankNordik til sölu 51% hlut sinn í félaginu en afganginn getur hann ekki selt fyrr en í lok júní ársins 2017 vegna skilmála frá Seðlabankanum.

Tíðinda að vænta í haust

Friðrik vildi ekki tjá sig um mögulega kaupendur eða kaupverð á hlutum BankNordik í Verði en sagði þó að mikill áhugi væri á tryggingarfélaginu og að tíðinda af sölunni yrði líklega að vænta í haust.

Samkvæmt verðmati sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum liggur verðmæti félagsins í kringum 3 til 3,5 milljarða króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .