Óvenju mikill álútflutningur er helsta ástæða þess hve vöruskiptahalli reyndist lítill í nóvember í fyrra. Í Morgunkorni Glitnis segir að hér sé líklega einnig komin skýring á miklum vöruskiptahalla í desember, því birgðastaða álvera hefur að líkum verið óvenju lág í nóvemberlok og því lítið ál flutt út í síðasta mánuði. Í nýbirtum tölum Hagstofu um vöruskipti til og með nóvember kemur fram að útflutningur nam 30,9 milljörðum króna í mánuðinum en vöruinnflutningur hins vegar 33,4 milljörðum króna, og var því 2,5 milljarða króna halli á vöruskiptum sem er 100 m.kr. minni halli en bráðabirgðatölur höfðu gefið til kynna. Mikil aukning framundan Í Morgunkorninu segir að álútflutningur hafi aukist talsvert á síðasta ári, þótt hægar hafi gengið að koma orkuframleiðslu frá Kárahnjúkavirkjun í fullan gang en gert var ráð fyrir. Er útlit fyrir að álútflutningur 2007 reynist í námunda við 415.000 tonn, sem jafngildir tæplega 40% magnaukningu milli ára. Enn meiri verður aukningin þó á þessu ári, enda má ætla að fullri framleiðslugetu verði náð í álveri Alcoa í febrúar, auk þess sem síðasta áfanga stækkunar álversins á Grundartanga er nýlokið. Greining Glitnis áætlar að u.þ.b. 750.000 tonn áls verði framleidd hérlendi í ár, en það jafngildir nálægt 80% aukningu milli ára miðað við ofangreinda áætlun okkar fyrir 2007. Álverð hefur gefið nokkuð eftir frá því það var hvað hæst í vor, en er þó enn allhátt og er frekar búist við að það hækki á ný en lækki frekar. Vöruskiptahalli minnkar á árinu Segja má að vöruskiptatölur á haustdögum hafi gefið til kynna hraðari bata á vöruskiptajöfnuði en efni stóðu til. Þannig varð útflutningur flugvéla til að draga úr vöruskiptahalla í október, og í nóvember kom til geysimikill álútflutningur eins og fyrr segir. Undirliggjandi halli var því öllu meiri en tölurnar gefa til kynna, en þó er ljóst að vöruskiptahalli fer nú minnkandi. Sú þróun mun halda áfram, að mati Greiningar Glitnis,  á því ári sem nú er nýhafið samfara mikilli aukningu álútflutnings og fyrirséðum samdrætti í innflutningi fjárfestingarvara. Einnig má reikna með að hægi á innflutningi á einkabifreiðum og varanlegum neysluvörum.