„Jólin eru talsverður annatími í fluginu. Fólk er á ferðinni milli landa, fyrst og fremst til þess að vera með fjölskyldu sinni. Það gildir um Íslendinga sem útlendinga, búsetta hér á landi sem erlendis,“ segir Guðjón Arngrímsson hjá Icelandair.

Hann segir flugfélagið keyra flugáætlun sína yfir hátíðarnar eins og vera ber og fljúga á alla áfangastaði. Oftast er flogið til Kaupmannahafnar og Lundúna og aðrar höfuðborgir Norðurlanda auk borga í Bandaríkjunum, einkum Boston, New York og Orlando í Flórída.

„Við sjáum því aukna eftirspurn í báðar áttir í kringum hátíðarnar, bæði til og frá landinu og líka í tengifluginu yfir Atlantshafið. Margir Íslendingar sem búa erlendis koma heim, en þeir fá líka til sín vini og fjölskyldur héðan,“ segir hann.