Bílainnflutningur hefur verið mikill undanfarin þrjú ár en á fyrstu 11 mánuðum þessa árs hefur hann þó verið minni en tvö síðustu ár. Það sem af er ári hefur verið fluttur inn 21.201 bíll, sem er 4% samdráttur frá fyrra ári. Ef litið er þrjú ár aftur í tímann er þetta hins vegar mikil aukning, því að þá voru fluttir inn rúmlega 15 þúsund bílar á fyrstu 11 mánuðum ársins, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Ef tekið er mið af þróun síðustu ára í desember má ætla að bílainnflutningur þessa árs verði í heildina svipaður og í fyrra, en þó heldur minni. Heildarinnflutningur allt árið í fyrra var 23.120 bílar.

Aukning á milli ára í nóvember

Innflutningur í nóvember var 1.938 bílar, sem er veruleg aukning frá sama mánuði í fyrra, en í fyrra var mestur þungi bílainnflutnings á fyrri hluta ársins, áður en krónan féll í kjölfar neikvæðrar umræðu um íslenskt fjármála- og efnahagslíf. Innflutningurinn tók verulega við sér aftur fyrir mitt þetta ár og hefur verið mikill síðan.