Að sögn Friðberts Traustasonar, framkvæmdastjóra Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF), er hluti af 4500 félagsmönnum nú á uppsagnartíma, þannig að félögum SSF er enn að fækka næstu mánuði þegar uppsagnarfrestur rennur út.

Friðbert sagði að það ætti meðal annars við um rúmlega 100 starfsmenn Spron, ásamt nokkrum tugum frá Sparisjóðabankanum og Straumi.

Árið 2001 voru félagsmenn SSF 3800, 2004 voru 3900 og 2005 voru félagsmenn SSF 4400. Að sögn Friðberts voru umsvif bankanna og þjónusta þeirra við almenning og fyrirtæki er örugglega ekki minni núna en var á þessum árum milli 2001-2005.

,,Allt greiðslumiðlunarkerfi landsins er nú inni í bönkunum, en ekki lengur á vegum fyrirtækjanna sjálfra, og þjónusta og ráðgjöf er mikið meiri til einstaklinga og minni fyrirtækja. Þannig sé ég að ekki starfsmönnum útibúa muni fækka, nema ef ríkið ætlar að draga úr þessari þjónustu, sem þá mun að sjálfsögðu koma mest niður á landsbyggðinni eins og var með pósthús, smásöluverslun læknisþjónustu, dreifingu fjölmiðla og fleira og fleira," sagði Friðbert.

Áhyggjur af fákeppni

Friðbert benti á að samkvæmt niðurstöðu Samkeppnisráðs í desember 2000 (120 blaðsíðna skýrsla) var óheimilt að sameina Landsbanka og Búnaðarbanka vegna yfirburðar sameinaðs banka á ýmsum sviðum fjármálaþjónustu, sem hefði leitt til óafturkræfrar fákeppni.

,,Þetta á enn betur við ef einhverjir tveir bankarnir yrðu sameinaðir á næstunni, samþjöppunin yrði reyndar töluvert mikið meiri nú en hún hefði orðið árið 2000. Þannig yrði þá að byrja á því að afnema samkeppnislög ef ríkisvaldið hugar að stórri sameiningu fjármálafyrirtækja. Það er algjörlega lífsnauðsynlegt fyrir eðlilega samkeppni og fjölbreytni að hafa í það minnsta fjögur hjól undir fjármálastarfsemi á Íslandi," sagði Friðbert.

Lítið um nýráðningar

Friðbert sagði að lítið væri um nýráðningar hjá bönkunum, og ekki ráðið í störf þar sem félagsmenn segja upp eða hætta t.d. vegna aldurs. Hann benti á að Kaupþing fjölgaði nokkuð ráðgjöfum, gjaldkerum og þjónustufulltrúum þegar þeir réðu starfsmenn frá Spron, um 40 félagsmenn. ,,Eina litla fyrirtækið sem hefur ráðið í ný störf er MP, það er í útibúið í Borgartúni."

Félagsmenn SSF voru flestir 5750, eru nú 4500 en fyrirséð fækkun þegar uppsagnartími rennur út á næstu misserum, eins og að framan greinir.