Framleiðni á vinnustund hefur vaxið hratt undanfarin misseri. Á síðasta ári jókst jókst hún um 5,1%. Hér er byggt á tölum Hagstofunnar um hagvöxt, vinnustundafjölda og fjölda starfandi. "Framleiðnivöxturinn er langt umfram meðaltal síðustu ára og umfram það sem við sjáum í flestum öðrum hagkerfum um þessar mundir. Um er að ræða framhald af afar jákvæðri þróun síðustu ára þar sem framleiðnivöxtur hefur færst í aukanna," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Á tímabilinu frá 1994 til 2003 jókst framleiðni á vinnustund hér á landi um 2,1% árlega en um 1,4% árlega á tímabilinu frá 1985 til 1993. Eftir að hafa verið eftirbátur annarra hagkerfa hvað framleiðni varðar hefur hið íslenska hagkerfi nú færst upp fyrir meðaltalið. Á tímabilinu frá 1994 til 2003 jókst framleiðni á vinnustund um 1,7% í ESB ríkjunum og um 1,9% í aðildarríkjum OECD. Í ár og á síðasta ári hefur framleiðnivöxtur hér á landi verið langt umfram það sem sést hefur að meðaltali í þeim ríkjum sem við berum okkur helst saman við.

Framleiðni á vinnustund hefur lengi verið lítil hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Þjóðin hefur þó náð að afla sér góðra tekna með því að vinna langan vinnudag og einnig með því að hér vinnur mjög stór hluti þjóðarinnar. Sameiginlegt markmið er að sjálfsögðu það að geta skapað meira með sama eða minna vinnuframlagi. Hraður framleiðnivöxtur síðustu missera sýnir að þjóðinni hefur orðið nokkuð ágengt í þessum efnum. Ekki er aðeins verið að gera hlutina með skilvirkari hætti heldur er í auknu mæli verið að gera hluti sem skapa meiri verðmæti á hverja vinnustund. Tengist framleiðnivöxturinn mjög náið þeim miklu breytingum sem íslenska hagkerfið hefur gengið í gegnum á síðustu árum. Hagkerfið hefur verið fært í átt til aukins frjálsræðis og með öflugu menntakerfi hefur sá hluti vinnuafls sem er í frumframleiðslu minnkað til muna og greinar á borð við fjármálaþjónustu og upplýsingatækni vaxið hratt. Mikill framleiðnivöxtur er vísbending um að vel hafi tekist til hvað þetta varðar.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.