Mikill framleiðnivöxtur hefur verið hjá vinnuafli á Íslandi á síðustu árum. Framleiðnivöxturinn sem segir að hver vinnandi Íslendingur afkasti meiru en áður nam 3,2% að meðaltali á árunum 2001 til 2003. Það er ríflega tvöfalt meiri framleiðnivöxtur en í Finnlandi og Danmörku og tæplega þrefalt meiri en í Svíþjóð á sama tíma. Norðmenn slógu okkur Íslendingum hins vegar við með 3,5% vöxt að jafnaði.

Í frétt frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að framleiðnivöxtur vinnuafls á Íslandi var í lægri kantinum á níunda og fyrri hluta tíunda áratugarins, en hefur síðan þá aukist mjög. Þær mælingar benda til að svigrúm er að myndast á Íslandi fyrir aukinn hagvöxt sem samræmist lágri verðbólgu. Miklar skipulagsbreytingar og alþjóðavæðing hagkerfisins eiga ríkan þátt í þessari þróun en það hefur leitt til aukinnar samkeppni og aðlögunar í atvinnulífinu.

Á einfaldastan hátt má segja að framleiðniaukning haldist í hendur við hagvöxt á mann og er framleiðniaukning því grundvöllur aukinna tekna og bættra lífskjara. Framleiðni vinnuafls er háð fjárfestingu í fastafjármunum, mannauði og skipulagi. Á síðustu árum hefur þáttur upplýsingatækni verið vaxandi í þessu samhengi.