Mikil veiking krónunnar á fyrsta ársfjórðungi mun ekki hafa nein teljandi áhrif á rekstrarniðurstöðu Kaupþings og Glitnis en Landsbankinn mun væntanlega reikna sér á fjórða tug milljarða til tekna.

Viðskiptabankarnir stóru færa áhrif gengisbreytinga krónunnar með mjög misjöfnum hætti í uppgjörum sínum og mun það skekkja verulega allan samanburð á rekstrarniðurstöðum bankanna á fyrsta ársfjórðungi en þá veiktist íslenska krónan um 23%.

Kaupþing [ KAUP ]og Glitnir [ GLB ] færa áhrif gengisbreytinganna að nær öllu leyti í gegnum efnhagsreikninga sína eins og það er kallað þannig þær hafa engin eða hverfandi áhrif á rekstrarniðurstöðu bankanna tveggja, þ.e. hagnað þeirra eða tap. Landsbankinn [ LAIS ] færir gengisbreytingar aftur á móti gegnum reksturinn, þ.e. reiknar sér til tekna óinnleystan gengishagnað vegna veikingar krónunnar. Ætla má að Landsbankinn hafi verið með vel yfir 100 milljarða króna í jákvæðan gengisjöfnuð á fyrsta fjórðungi þessa árs, fyrst og fremst í evrum, dölum og pundum. Það táknar þá að bankinn mun líklega færa sér til tekna á bilinu 30- 40 milljarða á fyrsta ársfjórðungi vegna veikingar krónunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .