*

miðvikudagur, 3. mars 2021
Erlent 16. júlí 2018 11:02

Mikill hagnaður hjá Deutsche

Hagnaður Deutsche Bank var langt yfir væntingum á öðrum ársfjórðungi, en bankinn hefur átt nokkuð erfitt og hefur verið að ganga í gegn um endurskipulagningu.

Ritstjórn
Christian Sewing tók nýlega við sem framkvæmdastjóri Deutsche Bank.
european pressphoto agency

Hagnaður þýska fjármálarisans Deutsche Bank fyrir skatta var um 700 milljón evrur, eða tæpir 88 milljarðar íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi, samkvæmt tölum sem bankinn birti nú í morgun og financial times segir frá.

Greiningaraðilar höfðu spáð um 320 milljón evra hagnaði, svo óhætt er að segja að tölurnar séu langt yfir væntingum, og í kjölfarið hækkuðu hlutabréf bankans um 7%.

Þrátt fyrir gott gengi nú er hagnaðurinn minni en á öðrum ársfjórðungi síðasta árs, en bankinn hefur átt nokkuð erfitt nýlega. Framkvæmdastjóri bankans, Christian Sewing, sem tók við starfinu fyrir um 3 mánuðum, er því að vonum ánægður með árangurinn.

Hann hefur staðið fyrir ýmsum aðgerðum til að skera niður kostnað, meðal annars því að fækka stöðugildum um 1700, en ótti sumra við að niðurskurðurinn kæmi harkalega niður á tekjum virðist ekki hafa verið á rökum reistur.