Hagvöxtur í Kína var 9,5% á fyrsta ársfjórðungi. Vöxturinn var heldur meiri en búist var við. Helstu ástæður fyrir miklum hagvexti voru aukning í útflutningi og fjárfestingu. Mörg erlend stórfyrirtæki líkt og Motorola og Quanta Computer hafa fjölgað verksmiðjum og aukið framleiðslu sína í Kína, til útflutnings til Bandaríkjanna, Evrópu og Asíu. Fjárfesting jókst verulega, eða um 23% á fyrsta fjórðungi.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn áætlar að Kínverska hagkerfið hafi staðið á bak við 1/10 af hagvexti í heiminum í fyrra og sé þar í öðru sæti á eftir Bandaríkjunum. Hagkerfið í Kína er á mikilli siglingu og telja ýmsir að vöxturinn sé helst til of hraður fyrir stöðugleikann í landinu. Spáð er 8,5% hagvexti í Kína á þessu ári.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.