Í júlímánuði voru fluttar út vörur fyrir 17,9 milljarða króna og inn fyrir 32,7 milljarða króna fob. Í samantekt Hagstofunnar kemur fram að vöruskiptin í júlí, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 14,8 milljarða króna. Í júlí 2006 voru vöruskiptin óhagstæð um 16,2 milljarða króna á sama gengi. Fyrstu sjö mánuðina 2007 voru fluttar út vörur fyrir 157,9 milljarða króna en inn fyrir 213,2 milljarða króna fob.

Halli var á vöruskiptunum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, sem nam tæpum 55,4 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 89,8 milljarða á sama gengi¹. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 34,4 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður.

Fyrstu sjö mánuði ársins 2007 var verðmæti vöruútflutnings 19,0 milljörðum eða 14% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 48% alls útflutnings og var verðmæti þeirra tæplega 5% meira en á sama tíma árið áður. Útfluttar iðnaðarvörur voru 42% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 30% meira en árið áður. Aukningu útflutnings má einna helst rekja til aukins álútflutnings en á móti kom minni útflutningur á lyfjum og lækningatækjum.

Fyrstu sjö mánuði ársins 2007 var verðmæti vöruinnflutnings 15,4 milljörðum eða 7% minna á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Mestur varð samdráttur í innflutningi á flugvélum og fjárfestingarvöru en á móti kom aukning í innflutningi á neysluvöru, annarri en mat- og drykkjarvöru.