Verulegur halli var á vöruskiptum við útlönd í apríl líkt og verið hefur undanfarin misseri, að sögn greiningardeildar Glitnis.

"Ástæðna mikils halla er í auknum mæli að leita í fjárfestingu og framleiðslu, fremur en einkaneyslu," segir greiningardeildin.

Hagstofan birti í morgun tölur um utanríkisverslun í síðasta mánuði og kemur þar fram að vöruútflutningur nam alls 17,7 milljörðum króna að verðmæti, en heildarverðmæti innflutnings í apríl var 27,3 milljarðar króna.

Vöruskiptahalli í mánuðinum var því 9,7 milljarðar króna líkt og bráðabirgðatölur höfðu sagt til um.

?Á fyrstu fjórum mánuðum ársins nam halli á vöruskiptum 41,6 milljarðar króna og er það tvöfalt meiri halli en á sama tímabili í fyrra. Meginástæða þessa er fjórðungs aukning innflutnings, en lítilsháttar aukning varð einnig í útflutningi milli ára," segir greiningardeild Glitnis.

Þá segir hún að sem fyrr var meirihluti alls vöruútflutnings á fyrstu fjórum mánuðum ársins sjávarafurðir og að heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða breyttist þó lítið milli ára, en hins vegar jókst útflutningsverðmæti iðnaðarvara verulega á tímabilinu, eða um 10% miðað við fast gengi.

?Aðalástæða þessa er hækkun álverðs á heimsmarkaði. Búast má við að útflutningur áls fari jafnt og þétt vaxandi á næstu mánuðum, eftir því sem stækkun álvers Norðuráls í Hvalfirði skilar aukinni framleiðslugetu," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir að í heild hefur innflutningur vaxið verulega það sem af er ári, ef miðað er við síðasta ár. Samsetning innflutnings hefur hins vegar breyst mikið í átt frá neysluvörum til fjárfestingar- og rekstrarvara. Þannig nam vöxtur í innflutning fjárfestingarvara að flutningatækjum undanskildum 56% ef fyrstu fjórir mánuðir ársins eru bornir saman við sama tímabil í fyrra á föstu gengi, og vöxtur í innflutningi hrá- og rekstrarvara nam 41%.

Innflutningur varanlegra neysluvara jókst hins vegar um rúm 14% á tímabilinu og innflutningur hálf-varanlegra neysluvara um 15%.

?Nokkuð hefur einnig hægt á aukningu í innflutningi einkabifreiða og raunar var minna flutt inn af fólksbílum í apríl en á sama tíma í fyrra, en það kann að skýrast að hluta af fjölda frídaga í mánuðinum. Líklegt er að þessarar þróunar gæti í enn ríkari mæli á næstu mánuðum og er því líklegt að halli á vöruskiptum minnki jafnt og þétt eftir því sem líður á árið," segir greiningardeildin.