Umtalsverður halli er á tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóðakerfisins, einkum þess hluta þess sem er með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga. Kemur þetta m.a. fram í ársreikningabók FME um lífeyrissjóðina fyrir árið 2012.

Til að draga megi úr halla í lífeyriskerfinu þyrfti að mati FME að hækka iðgjöld, skerða réttindi eða hækka lífeyrisaldur. Þá segir í bókinni að tekjutenging lífeyrisréttinda og almannatrygginga hafi fram að þessu dregið úr vilja til lífeyrissparnaðar. Gjaldeyrishöft takmarki enn fjárfestingamöguleika lífeyrissjóðanna og möguleika þeirra til áhættudreifingar.

„Tryggingafræðileg staða sjóða með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga er sem fyrr mjög slæm og nemur hallinn í árslok 2012 nærri 574 milljörðum kr. Tryggingafræðileg staða sjóða sem ekki njóta ábyrgðar launagreiðenda hefur batnað smám saman frá árinu 2008 og var halli þeirra nærri 100 milljarðar kr. í árslok 2012. Þrátt fyrir góða ávöxtun lífeyrissjóðanna á liðnu ári varð óveruleg breyting á tryggingafræðilegri stöðu þeirra þegar á heildina er litið. Megin ástæður þess eru auknar skuldbindingar vegna hækkandi lífaldurs og lægra endurmat verðbréfa í tryggingafræðilegu mati,“ segir á vefsíðu FME.

Eignir alls lífeyriskerfisins voru í árslok 2012 um 2.540 milljarðar króna eða 149% af vergri landsframleiðslu og hefur hlutfallið aldrei verið hærra. Eignir samtryggingadeilda lífeyrissjóða voru 2.159 milljarðar, sem er um 85% af markaðnum og að auki nam séreignasparnaður í vörslu þeirra um 236 milljörðum króna. Séreignasparnaður í vörslu annarra en lífeyrissjóða nam 146 milljörðum króna í árslok 2012.

Fimm stærstu lífeyrissjóðirnir eru þeir sömu og í fyrra, þ.e. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi lífeyrissjóður, Stapi lífeyrissjóður og Sameinaði lífeyrissjóðurinn. Hrein eign þeirra nam 1.403 milljörðum króna í árslok 2012 sem er um 55% af lífeyrismarkaðnum og um 82% af vergri landsframleiðslu.

Eignir með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga halda áfram að aukast og námu 49% af heildareignum samtryggingadeilda í árslok 2012. Þetta hlutfall var aðeins um 24% um mitt ár 2008.