Samtök atvinnulífsins telja að flytja þurfi inn 12 þúsund starfsmenn á næstu fjórum árum vegna skorts á innlendu starfsfólki, en þetta kemur fram í umsögn samtakanna við frumvarp að breytingum á lögum um atvinnuréttindi útlendingar.

SA áætla þannig að 80% af fjölgun starfa á árunum 2014-2019 hafi stafað frá einkageiranum en einungis 20% þeirra starfa var sinnt af Íslendingum. Samtökin telja að alltof lítil fjölgun á innlendu starfsfólki hefur kallað eftir stórfelldum innflutning á erlendum starfsmönnum á umræddu tímabili og þá sérstaklega háskólamenntuðu fólki. Segir SA að störfum á Íslandi muni fjölga um 15 þúsund á árunum 2022-25 en innlendu fólki á starfsaldri fjölgi einungis um 3 þúsund. Því er um verulegan starfsmannahalla að ræða.

SA telur að um helmingur þeirra 12 þúsund einstaklinga sem hér þarf að flytja inn verði háskólamenntaður og árleg þörf fyrir innflutt starfsfólk með slíka menntun verður því 1600 manns á ári. „Stjórnvöld þurfa að bregðast við þessari þörf og laða starfsfólk með viðeigandi hæfni hingað til lands.” segir í umsögninni.

Umrætt frumvarp kveður á rýmkun á heimild Vinnumálastofnunar til að víkja frá skilyrðum er varða tímabundið dvalarleyfi vegna atvinnu. En SA telja þetta jákvæða þróun í þá átt að laða til landsins sérfræðinga á vinnumarkaði en að mati SA þarf samt að ganga enn lengra. Þannig telur SA að skilyrði um samþykki Vinnumálastofnunar og rökstuðningi atvinnurekanda geri ferlið enn of þungt í vöfum.

Að lokum segir SA að: „aukin atvinnuréttindi útlendinga auðga menningu Íslendinga og hafa jákvæð áhrif á efnahag landsins. Það er mikill ávinningur fólginn í því að lagalegar hindranir sem mæta útlendingum sem kjósa að starfa hérlendis séu skoðaðar heildstætt og að leitað sé allra leiða til að draga úr þeim þar sem það er mögulegt.”