Lilja Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður Ragnars Kjartanssonar, segir mikinn framleiðslukostnað liggja á bak við listamannsins. Til dæmis megi líkja gerð sýningarinnar The Visitors við kvikmyndaframleiðslu. Borga þurfi fólki sem tekur þátt; tónlistarmönnum, töku- og tæknimönnum, höfundarréttargjöld og ferðakostnað svo fátt eitt sé nefnt í sambandi við það verk.

Ragnar Kjartansson í verkinu The Visitors.
Ragnar Kjartansson í verkinu The Visitors.
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)
Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að The Visitors hefði verið framleitt í sex eintökum og þau væru nú uppseld. Verðmiðinn á hverju verki væri um 120 þúsund Bandaríkjadalir, sem jafngilti 84 milljónum króna samtals. Lilja segir að það geti verið villandi að halda að Ragnar Kjartansson fái allt söluandvirði í sinn vasa. Hann þurfi að standa straum af kostnaðinum auk þess sem gallerí taki þóknun fyrir sína vinnu. Þá sé oft gefinn afsláttur af uppgefnu verði til safna.

Fjármagnar framtíðarverk

Hún bendir líka á að söluna á The Visitors og öðrum eftir atvikum noti Ragnar til að fjármagna þau verkefni sem hann er þegar með á prjónunum. Þetta geri það að verkum að hann getur haldið áfram listsköpun sinni, sem í sumum tilfellum sé kostnaðarsöm. Á bak við eitt verk sem gangi vel og seljist fyrir álitlegar upphæðir séu kannski mörg önnur sem ekki gangi jafnvel. Það sé því mjög jákvætt þegar vel gengur.

Sýnir verkið í Kling og Bang

Umrætt verk er núna til sýnist í Kling og Bang að Hverfisgötu 42 í Reykjavík. Á heimasíðu gallerísins má lesa nánar um verkið og í Viðskiptablaði dagsins má lesa um önnur verkefni sem Ragnar hefur unnið að.

Rétt er að geta þess að myndir af The Visitors, sem birtust í Viðskiptablaðinu og á vb.is, tók Elísabet Davíðsdóttir ljósmyndari. Þá kom fram að The National hefði flutt lag sitt Sorrow viðstöðulaust í 12 klukkustundir. Rétt er að hljómsveitin flutti lagið samfellt í 6 klukkustundir.