Fellibylurinn Irma hefur leikið margar eyjar í Karíbahafinu grátt og valdið mikilli eyðileggingu. Kostnaður vegna fellibylsins fer stigvaxandi og nemur í kringum 10 milljarða Bandaríkjadala eða því sem nemur um 1.062 milljörðum króna miðað við gengi dagsins í dag. Um málið er fjallað í frétt BBC.

Að mati Hamfaramiðstöðvar sem heldur utan um tölfræði varðandi hryllilega fellibyli sem þessa er Irma sá fellibylur sem hefur valdið hvað mestu tjóni á svæðinu. Flugvellir eru enn lokaðir og skemmtiferðaskip hafa hætt við ferðir sínar til Karíbahafsins.

Sumar eyjar á svæðinu, til að mynda St. Kitts og Púerto Ríkó virðast hafa sloppið ágætlega. Aðrar eyjar hafa þurft að glíma við gífurlega erfiða tíma vegna fellibylsins. Að sögn Hugh Riley, forseta Ferðamannaráðs Karíbahafsins, hefur fellibylurinn haft mjög neikvæð áhrif á efnahag svæðisins, fyrir utan þann andlega kostnað sem hlýst af mannsfalli og eyðileggingu heima.