Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er fjallað um hvernig viðskiptahagkerfinu vegnaði á síðasta ári samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Í blaðinu voru sjö atvinnugreinar bornar saman, þar á meðal ferðaþjónusta, tækni- og hugverkaiðnaður, sjávarútvegur, byggingageirinn og fasteignaviðskipti. Þar að auki er fluggeirinn skoðaður, sem flokkast undir ferðaþjónustu.

Ef við deilum launakostnaðinum á hvern launþega sjáum við að í fluggeiranum eru launþegarnir að meðaltali dýrastir. Þar nemur meðallaunakostnaður á hvern launþega á mánuði rétt rúmum 1,2 milljónum króna, þegar litið er til síðasta árs. Upphæðin hækkaði verulega á milli ára, var 911 þúsund krónur árið 2020. Þess ber að geta að þegar átt er við einn launþega er ekki endilega átt við eitt stöðugildi.

Ef við höldum áfram að bera saman meðallaunakostnað á hvern launþega milli atvinnugreina sjáum við að sjávarútvegurinn og stóriðjan eru ekki langt frá fluggeiranum. Í þessum greinum er meðallaunakostnaður á hvern launþega umfram milljón krónur á mánuði. Launakostnaður á hvern launþega hefur hækkað talsvert í sjávarútvegi að undanförnu og farið úr 876 þúsund krónum á mánuði upp í 1.115 þúsund krónur á einungis þremur árum.

Þegar heildarlaunakostnaður atvinnugreinanna er skoðaður má sjá að tækni- og hugverkaiðnaður trónir á toppnum með um 141 milljarð króna í launakostnað. Fast á hæla þess kemur ferðaþjónustan með launakostnað upp á 137 milljarða.

Nánar er fjallað um viðskiptahagkerfið á síðasta ári í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.