Nýr kjarasamningurinn starfsmanna Norðuráls var samþykktur með 85,4% greiddra atkvæða, eða 364 starfsmanna hjá Verkalýðsfélags Akraness (VLFA).

Þetta kemur fram á vef Skessuhorns en talningu atkvæða lauk í dag.

Nei sögðu 62, eða 14,5% og einn skilaði auðu. Þátttaka í kosningunum var 90% starfsmanna sem höfðu kosningarétt.

„Það er afar ánægjulegt að sjá að starfsmenn virðast vera ánægðir með þann árangur sem náðist í þessum kjarasamningi enda tel ég að þessi samningur sé heilt yfir mjög góður fyrir starfsmenn,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA í samtali við Skessuhorn.

„Helstu markmið samningsins náðust fram en starfsmenn eru að hækka umtalsvert í launum og sem dæmi þá er vaktavinnufólk að hækka frá 30 þúsundum og upp í tæpar 35 þúsund krónur á mánuði.“

Þá kemur fram að samningurinn hafi innifalið eingreiðslu upp á 150 þúsund krónur. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2010. Þetta gerir það að verkum að starfsmaður í vaktavinnu sem hefur starfað í fimm ár hjá Norðuráli á von á greiðslu um miðjan maí að upphæð sem er nálægt 300 þúsund krónur.

Launaliður samningsins verður aftur laus um næstu áramót en samningurinn í heild sinni gildir til 31. desember 2014.