71,8% íbúa Reykjavíkur vilja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Þetta sýna niðurstöður MMR könnunar sem gerðar voru fyrir samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni. 28,2% Reykvíkinga vilja að flugvöllurinn fari.

Greint eftir stjórnmálaflokkum kemur í ljós töluverður munur. Framsóknarmenn vilja helst hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni, en 89,2% þeirra vilja hafa hann áfram. 87,2% sjálfstæðismanna vilja hafa flugvöllinn áfram.

Öllu færri kjósendur VG vilja hafa hann áfram, eða 65,1% og 62,6% kjósenda Bjartrar framtíðar.

Aftur á móti vilja einungis 44,9% kjósenda Samfylkingarinnar hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni og 46,3% kjósenda Pírata.

Könnunin fór fram dagana 9. til 11. september 2013. 330 svöruðu spurningunni og af þeim tóku 287, eða 87% aðspurðra íbúa í Reykjavík afstöðu.

Spurt var: "Vilt þú að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík?". Meðfylgjandi eru niðurstöður fyrir sveitarfélagið Reykjavík.