Mikill meirihluti stjórnenda, eða 61,5%, telur að algengt sé að lög séu brotin í viðskiptalífinu og á hlutabréfamarkaðinum án þess að brotin komist upp eða á þeim sé tekið. Þetta er niðurstaða í skoðanakönnun sem PSN-kannanir gerðu fyrir Viðskiptablaðið meðal íslenskra stjórnenda. Könnunin var gerð dagana 1.-8. júní síðastliðinn og náði til 400 stjórnenda en 366 svöruðu. Könnunin er birt í Viðskiptablaðinu í dag.

Athygli vekur að aðeins 9 af hverjum 100 telja að lögbrot í viðskiptalífinu séu mjög óalgeng en 29% eru þeirrar skoðunar að þau séu óalgeng. Alls eru því tæp 38,5% á því að brot á lögum séu mjög óalgeng eða óalgeng og er þá miðað við þá sem afstöðu tóku til spurningarinnar. Aðeins einn neitaði að svara spurningunni en 23,5% sögðust ekki vita svarið.

Nær 47% þeirra sem afstöðu tóku sögðust telja það algengt að lög væru brotin og tæp 15% sögðu lögbrotin mjög algeng. Alls voru 61,5% stjórnenda á því að algengt eða mjög algengt væri að framin væru lögbrot, eins og áður segir.

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag