Samkvæmt tilkynningu Hagstofunnar er verðmæti þjónustuútflutninga í febrúar 2022 áætlaður um 35 milljarðar króna en það er ríflega tvöföldun frá febrúar seinasta árs. Er gert ráð fyrir að útflutningstekjur af ferðalögum hafi verið um 13,5 milljarðar króna í febrúar á móti 1,7 milljarði í fyrra.

Áætlað er að tekjur af samgöngum og flutningum hafi verið 9,7 milljarðar í febrúar sem er 50% aukning á milli ára. Verðmæti annara þjónustuliða er áætlaður um 12 milljarðar króna sem er 30% hækkun á milli ára.

Hvað varðar þjónustuinnflutning þá er hann áætlaður að 38 milljarðar króna í febrúar sem er 79% aukning á milli ára. Er gert ráð fyrir að útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga erlendis hafi verið rúmir 10 milljarðar króna sem er næstum þreföldun á milli ára.

Hagstofa áætlar að verðmæti vöruútflutninga hafi verið ríflega 66 milljarðar króna á móti rúmum 80 milljörðum króna í vöruinnflutning og var því vöruskiptajöfnuður neikvæður um rúma 15 milljarða króna.